Selfoss mætti ÍA í 1. deild karla í kvöld. Þetta var jafn leikur, en Selfoss leiddi allan seinni hálfleikinn, þar til 5 mínútur voru eftir að ÍA jafnaði 61-61, og var svo á undan að skora það sem eftir lifði leiks. Þriggja stiga skot Selfyssinga til að jafna leikinn þegar fáar sekúndur voru eftir misfórst og ÍA tryggði sigurinn með því að hitta úr vítaskoti með 3 sek. á klukkunni, 72-76.
Það munaði um að miðherji Selfoss, Gerald Robinson, spilaði bara tæplega fyrsta fjórðunginn og kom ekki meira við sögu eftir það. Það var því ungmennaflokkslið Selfoss sem spilaði helftina úr þessum leik, og stóð alveg jafnfætis liði Akurnesinga, með sína þrjá atvinnumenn og aðra þrjá lánsmenn frá úrvalsdeildarliði ÍR, sem þeir bættu í leikmannahópinn í janúar. Skagamenn eru komnir með mun meiri breidd og sterkara lið en þeir tefldu fram í fyrri hluta mótsins, hafa nú unnið tvo leiki í röð, eru komnir í þéttan hóp liða í 6.-9. sæti og geta veitt hverjum sem er verðuga keppni.
Bandaríski miðherjinn Jalen Dupree var ansi öflugur gegn bakvarðasveit ungmennanna í Selfossliðinu, skoraði 23 stig og tók 14 fráköst. Ungur Skagamaður var þó framlagshæsti leikmaður liðsins, Þórður Freyr Jónsson, sem skoraði 19 stig, gaf 7 stoðsendingar og hitti 50% af þriggjastigafæri. Lucien Christofis setti 13 stig og gaf 4 stoðsendingar, Anders Aderstag skoraði 8, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar og lánsmennirnir Frank Gerritsen og Jónas Steinarsson voru betri en enginn, báðir með +10 í +/- gildi, eins og reyndar heimastrákurinn Júlíus Duranona.
Það sem varð Selfossliðinu að falli í kvöld var hörmuleg hittni af þriggjastigafæri, 5 af 30 eða 17%!! Þarna var alger umsnúningur frá fyrri leikjum, því t.d. okkar bestu skyttur, Kennedy og Arnaldur, hittu nú 1/16, en hittu 17/32 í tveimur leikjum þar á undan, eða 52%. Munar þar um minna, en svona sveiflur verður að hafa með í jöfnunni þegar svo ungir leikmenn bera uppi lið.
Birkir Hrafn var sá eini sem var á pari með 2/4 eða 50% nýtingu af þessu færi. Þeir Birkir og Ísak Júlíus voru framlagshæstu leikmenn Selfoss með 17 punkta. Ísak skoraði 13 stig, gaf 4 stoðsendingar og tók 4 fráköst og var mjög öflugur í gegnumbrotum, hitti 5/7. Birkir skoraði 11 stig, tók 9 fráköst og skotnýtingin afbragð hjá honum. Arnaldur skoraði 12 sig og tók 9 fráköst, Ísar Freyr 8 stig og gaf 3 stoðsendingar og Sigmar Jóhann skoraði 2 stig, og liðið vann þær 10 mínútur sem hann spilaði með 8 stigum. Gerald skoraði 12 stig á þessum tæpu 10 mínútum sem hann spilaði, og sér hver maður að munar um að hafa hann með, ekki síst ef þetta er margfaldað með fjórum og fengin 48 stig úr því dæmi! 🙂
Selfossliðið var betra á mörgum sviðum leiksins. Tveggjastiganýtingin mun betri, vítanýtingin sömuleiðis og liðið vann frákastabaráttuna. Skagamenn voru ofan á í stoðsendingum og þriggjastiganýtingu (17/30) en Selfossliðið fékk fleiri framlagsstig, 89 gegn 88 hjá ÍA. En þau ráða víst ekki úrslitum, heldur skoruð stig, og þar höfðu gestirnir betur, eins og fyrr var getið.
Selfoss á næst erfiðan útileik gegn Sindra á föstudaginn eftir viku, 3. mars kl. 19:15, og skömmu síðar, eða mánudaginn 6. mars, heimaleik gegn Þór frá Akureyri. Það er annar af tveimur heimaleikjum sem eftir eru hjá liðinu, hinn er lokaleikurinn 24. mars gegn Ármanni.
Sú vísa verður seint of oft kveðin að undanfarnir leikir, og þeir sem eftir eru á tímabilinu, eru gríðarlega mikilvægir okkar ungu drengjum sem undirbúningur fyrir næsta og næstu keppnistímabil. Þó leikmönnum finnist sú tugga ábyggilega súr á bragðið, þá er sigur eða tap ekki meginmálið á þessum tímapunkti í uppbyggingunni, allt fer í bankann góða, reynslubankann, sem ekki er gott að hola að innan með ótímabærum arðgreiðslum, heldur leggja inn af þolinmæði og forsjálni og bíða þar til innistæðan er meiri og taka þá út það sem hún stendur undir.
ÁFRAM SELFOSS!!!