Í kvöld hélt Frístunda- og menningarnefnd Árborgar uppskeruhátíð sína fyrir árið 2022. Nefndin veitti viðurkenningar fyrir Íslands- og bikarmeistaratitla á árinu og tilkynnti úrslit í kjöri íþróttakonu og -karls Árborgar. Það voru þau Eva María Baldursdóttir frjálsíþróttakona og Aron Gunnarsson golfari sem urðu hlutskörpust í kjörinu.

Einnig gerðu íþróttafélögin í sveitarfélaginu grein fyrir úthlutunum úr Afreks- og styrktasjóðum sínum, en sveitarfélagið leggur sjóðunum til sérstakt fjármagn sem er hluti af þjónustusamningi þess við félögin.

Selfoss Karfa úthlutaði á árinu fé til fjögurra landsliðsmanna félagsins og til fimm þjálfara sem sóttu námskeið á árinu, þeirra Chris Caird, Bjarma Skarphéðinssonar, Karls Ágústs Hannibalssonar, Trausta Jóhannssonar og Bjarna Þórs Erlingssonar.

Landsliðsmennirnir eru Ari Hrannar Bjarmason, Birkir Hrafn Eyþórsson og Tristan Máni Morthens, sem allir léku  með U16 ára landsliðinu í sumar, og Óli Gunnar Gestsson, sem lék með U20 ára landsliðinu. Þeim var afhent viðurkenningarskjal í kvöld af þessu tilefni.

Jafnframt veitti félagið Körfuknattleiksmanni ársins viðurkenningarskjal, en fyrir valinu innan félagsins varð Birkir Hrafn Eyþórsson. Hann hóf meistaraflokksferil sinn 14 ára gamall haustið 2021 og á yfirstandandi keppnistímabili hefur hann verið fastamaður í liði Selfoss í 1. deild karla. Birkir Hrafn var í sumar valinn í úrvalslið NM og varð annar í kjöri besta leikmanns EM U16. Birkir var jafnframt í glæsilegum hópi íþróttamanna í kjöri Íþróttakarls Árborgar og lenti þar í þriðja sæti.

Þeir Ari Hrannar og Tristan Máni hafa báðir í haust fengið smjörþefinn af æfingum og keppni í meistaraflokki og munu innan skamms verða þar máttarstólpar, ásamt mörgum fleiri leikmönnum á svipuðum aldri sem eru u.þ.b. að stíga yfir þann þröskuld. Óli Gunnar er í vetur á körfuboltaskólastyrk við nám  í Bandaríkjunum og var nýfloginn þangað aftur úr stuttu jólafríi, þannig að faðir hans, Gestur Rúnarsson Brettingz, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Á meðfylgjandi mynd eru, frá vinstri til hægri talið, formaður félagsins, sem afhenti viðurkenningarnar f.h. stjórnar, Ari Hrannar, Birkir Hrafn, Tristan Máni og Gestur.

Til hamingju, allir.

ÁFRAM SELFOSS!!!