A hópur 10. flokks spilaði tvo leiki í liðinni viku, einn heimaleik og einn útileik. Á miðvikudagskvöld komu ÍA strákar í heimsókn en þessi leikur er einn af nokkrum sem hafa færst til vegna Covid og veðurs til skiptis. Skagamenn voru ferskir og líflegir í upphafi leiksins og skoruðu auðveldar körfur og leiddu mest allan fyrsta leikhluta en Selfoss komst yfir í lok leikhlutans og staðan 20-18 fyrir Selfoss eftir 8 mínutur.
En þarna skildu leiðir og Selfoss skellti vörninni í lás og ÍA strákum tókst illa að leysa ákafa og aðgangsharða vörn Selfyssinga. Sama var upp á teningnum í bæði þriðja og fjórða leikhluta, vörn heimamanna sterk og Skagamenn fundu engar lausnir. Lokatölur leiksins Selfoss 89 – ÍA 47
Á sunnudag fór liðið til Hafnafjarðar og heimsótti Hauka. Þessi lið hafa mæst tvisvar á leiktímabilinu og unnið sitt hvorn leikinn.
Selfyssingar byrjuðu leikinn vel og voru aðgangsharðir eins og þeim er einum lagið varnarlega og neyddu heimamenn ítrekað í erfið skot og refsuðu strax með hraðahlaupum og beittum sóknum. Haukar sáu aldrei til sólar í leiknum og urðu lokatölur Selfoss 83- Haukar 45.
Tveir góðir sigrar og varnarleikur liðsins er að smella saman eftir harðar og ákafar æfingar.
ÁFRAM SELFOSS!!!