B- lið 9. fl. drengja  keppti á heimavelli í fyrsta helgarmóti vetrarins um síðustu helgi. Liðið spilaði tvo leiki á laugardegi og aðra tvo á sunnudeginum.
Fyrri dagurinn var frábær hjá drengjunum. Fyrst öttu þeir kappi við B-lið Hauka og skemmst er að segja frá því að það var aldrei nein spurning um úrslit, Selfoss hafði góð tök á öllu og vann örugglega 49-19. Það sama var uppi á teningnum í næsta leik, gegn B-liði ÍR, þar sem munurinn í leikslok varð 44 stig, 54-10.
Seinni keppnisdaginn mætti Selfoss fyrst D-liði Stjörnunnar. Það tók okkar menn smá stund að komast í gang en eftir að kviknaði á perunni skein okkar ljós skært og öruggur sigur vannst í flottum leik, lokatölur 58-28.
Lokaleikur helgarmótsins var viðureign Selfoss-B og KR-B, og um leið úrslitaleikur um það hvort liðið færðist upp um riðil í næstu umferð. Selfossliðið byrjaði illa og KR-ingar náðu strax í fyrsta hluta góðu forskoti. Þó Selfoss næði með mikilli baráttu og flottum tilþrifum að saxa forskotið niður í 3 stig í þriðja hluta, 23-26, þá dugði það ekki til að þessu sinni, KR jók forskotið aftur og vann að lokum öruggan sigur.
Það verður því að bíða næstu umferðar hjá okkar drengjum að fara upp, en það er vel leysanlegt verkefni hjá þessum efnilegu piltum. Það var gaman að fylgjast með liðinu og sjá einlæga keppnisgleðina, vasklega og drengilega framgöngu í hvívetna bæði innan vallar og utan.  Takk fyrir skemmtunina, piltar.
1, 2, 3, SELFOSS!!!