Selfossliðið tók veikindadaga sína út í Borgarnesi í gær. Bæði vantaði þjálfarann og miðherja liðsins og einhverjir voru nýskriðnir úr bælinu. Eftir ágætar upphafsmínútur skildi á milli og Skallagrímur vann öruggan sigur, 100 – 87.

Eftir sex mínútna leik var leikurinn jafn, 19- 17, en heimamenn lokuðu fyrsta fjórðungi með 12-2 kafla og lögðu þar grunninn að sigrinum. Hinir þrír fjórðungarnir voru jafnari, Selfoss vann 2. og 4. fjórðung en Skallagrímur þann þriðja, og bætti á 30 mínútum einu stigi við 12 stiga forskotið sem skapaðist þær fyrstu 10.

Varnarleikurinn var Akkillesarhæll Selfyssinga. Skallagrímur fékk allt of margar auðveldar körfur og skoraði 62 stig inni í teig, mest ótrufluð sniðskot. Menn sátu eftir á hindrunum og engar tilraunir gerðar til að hægja á mönnum með því að stíga upp fyrir hindrunina og „taka þá á kassann“. Þá voru okkar menn í þangarbindindi mestallan leikinn og þrátt fyrir góðan ásetning þá náðist ekki upp sá eldmóður eða einbeiting sem nauðsynleg er til að vinna svona leiki á útivelli. Auðvitað má segja að verkefnið hafi verið erfitt fyrir ungt og miðherjalaust lið, án þjálfarans og eftir ónýta undirbúningsviku vegna veikinda, en á engan hátt óyfirstíganlegt. Hins vegar var meiri og betri samvinna nauðsynleg í varnarleiknum, eins og sést á því að bandaríski leikmaðurinn í liði Skallagríms, Keith Jordan Jr., skoraði 37 stig og tók 13 fráköst, skilaði 48 framlagspunktum og spilaði nánast allan leikinn. Það þarf því ekki mikil vísindindi eða skýrslur til að fullyrða að hann hafi riðið baggamuninn fyrir Borgnesinga, greinargerð dugar, jafnvel þó óbirt sé. Þeir Marinó Pálmason (17 stig) og Sedlarevic (14 stig) komu svo í humátt á eftir honum.

Selfoss tefldi fram 10 leikmönnum, þar af helmingnum, eða 5 strákum, úr 2006 og 2007 árgöngunum. Einn af þeim, Birkir Hrafn Eyþórsson, sem 16 ára gamall hefur komist í gegn um nálarauga U18 ára landsliðsins, var bestur allra í sóknarleiknum, skoraði 20 stig, tók 4 fráköst, skilaði 70% skotnýtingu og var framlagshæstur liðsmanna með 21 punkt. Þá var Styrmir Jónasar, ári eldri, góður en hann skoraði 12 stig og var með 16 framlagspunkta, sem er býsna gott dagsverk á tæpum 20 mínútum. Hinir „litlu strákarnir“, Skarphéðinn Árni, Gísli Steinn og Sigurður Logi, komu allir inn á og gerðu vel, þó ekki hafi þeir sett stig á töfluna að þessu sinni.

Kjarninn í liðinu, Kennedy, Arnaldur, Ísak og Ísar, var nálægt sínum meðaltölum í sóknarleiknum, nema Kennedy, sem er 16 stiga maður, skoraði „bara“ 7 stig en tók 5 fráköst. Arnaldur skoraði 19 stig, tók 5 fráköst og var með 19 í framlag, og ekki hægt að kvarta undan því, fremur en 11 stigum frá Ísari og Ísaki, eða 7 stigum og 3 fráköstum Sigmars.

Það er sem sagt ekkert að því að skora 87 stig á útivelli gegn einu af toppliðunum, að ekki sé talað um við þær aðstæður sem lýst hefur verið, án stiga- og frákastahæsta leikmanns liðsins. Og þó vantað hafi hæð í teiginn hefði vörnin vel getað verið betri, Skallagrímur þolir alveg að barið sé aðeins á honum og villukvótinn nýttur aðeins betur, þó ekki sé annað.

Nú er einn leikur eftir, úrslitakeppnin er úti, heimaleikur gegn Ármanni næstkomandi föstudag, 24. mars, og tími til að berja sig saman fyrir þann leik og enda tímabilið með smá blóð á tönnum.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræði leiksins

Staðan