Það var falleg og skemmtileg stund í Gjánni í gær á styrktarleik Selfoss gegn Hetti í 1. deild karla. Mjög góð mæting var á leikinn og rífandi stemmning á pöllunum. Leikurinn stóð undir væntingum, var skemmtilegur, jafn og spennandi, og þó Selfossliðið hafi í lokin verið einu númeri of lítið gegn toppliðinu þá sýndu strákarnir hvað í þeim býr og voru nálægt því að krækja í mikilvæg tvö stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Leikmenn borguðu sig inn á leikinn og Selfoss Karfa þakkar þeim af alhug og öllum þeim sem sýndu í verki stuðning sinn við málefnið og sendir hlýjar kveðjur til fjölskyldunnar sem nú á um sárt að binda.

Höttur byrjaði betur, komst fljótlega í 4-11, og leiddi allan fyrsta fjórðung, 14-18 að honum loknum. Selfossliðið hóf annan fjórðung á tveimur þristum og tók forystuna, 20-18, og komst á feikna skrið, munurinn varð mestur 16 stig okkur í hag, 38-22, en gestirnir helminguðu þá forystu og vel það síðustu tvær mínúturnar í fyrri hálfleik í hléi stóð 39-30. Höttur saxaði forskotið niður hægt og bítandi í þriðja hluta, en Selfoss leiddi enn þegar aðeins síðasti leikhlutinn var eftir, 55-51. Höttur setti 5 fyrstu stig lokafjórðungs og tók forystuna, 55-56, en Selfoss hélt dampi og komst aftur yfir 65-63 þegar þrjár mín. voru eftir. En reynsla og líkamsstyrkur gestanna vóg þungt á metunum síðustu mínúturnar, þeir sóttu inn í teiginn, létu boltann ganga hratt og örugglega og gerðu engin mistök og tryggðu 5 stiga sigur, 69-74.

Höttur keyrir á 6 leikmönnum, 4 fullvaxnir og líkamlega sterkir erlendir atvinnumenn, ásamt Eysteini Bjarna, spila allir yfir 30 mínútur og Sigmar Hákonarson yfir 20. Liðið spilar góðan liðsbolta, er vel skipulagt og keyrir á styrkleikum sínum. Okkar „kjúklingar“ áttu erfitt uppdráttar, sérstaklega undir körfunum, vegna augljóss munar á líkamsburðum. Þegar Höttur náði að stjórna hraðanum mallaði liðið eins og vel smurð vél og saxaði niður forskot Selfyssinga, sem höfðu náð forystunni með hröðum kafla þar sem flest gekk upp. En þrátt fyrir tapið er ekki hægt annað en að hrósa strákunum fyrir baráttuvilja og einbeitingu. Það vantaði ekki mikið, en nóg samt, til að leggja besta lið deildarinnar að velli.

Cunningham skilaði enn einni tröllatvennunni fyrir Selfoss, 19 stigum og 19 fráköstum, Kristijan Vladovic 12 stigum og 6 stoðsendingum, Maciek 12 stigum og 4 fráköstum, Alex 11 stigum og 4 fráköstum, Arnór Eyþórs 5 stigum og 5 fráköstum, Ragnar Magni 4 stigum, Svavar Ingi 3 stigum, Arnór Ívars 2 stigum og Sigmar Jóhann 1 stigi.

Tölfræðin

Upptaka af leiknum

Tilþrif leiksins