Fjórir leikir hafa þegar verið leiknir í yngri aldursflokkunum þegar vika er liðin af nýju ári. Gengið hefur verið ljómandi, og að segja má að sé beint framhald af góðu gengi á liðnu ári. Allir fjórir leikirnir unnust örugglega.

11. flokkur b hóf árið 2023 strax 2. janúar á útivelli. Andstæðingurinn var lið Fjölnis og leikið í Grafarvoginum. Okkar menn unnu með rúmum 30 stigum, 52-85.

Næst kom að 11. flokki a sem ferðaðist til Keflavíkur og mætti heimamönnum í Blue-Höllinni. Þessi leikur var sömuleiðis í öruggum höndum Selfyssinga, úrslitin 59-83.

12. flokkur hóf árið á heimavelli í Gjánni. Gestirnir voru úr Breiðholtinu, b lið ÍR, og varð ekki mikil eða spennandi keppni úr þeirri viðureign. Selfoss vann 128 – 81.

Að lokum er frá því að segja að ungmennaflokkur Selfoss spilaði gegn Val í Origo-Höll þeirra Hlíðarendabænda í gær, sunnudag. Það sama var uppi á teningnum, Selfoss vann öruggan 29 stiga sigur, úrslitin 71 – 100.

Það má því segja að bullandi gangur sé í starfinu og hægt að gera sér vonir um bjarta daga í nánustu framtíð.

ÁFRAM SELFOSS!!!