Þrír leikir voru á dagskrá um helgina hjá yngri aldursflokkunum. Stúlkurnar í sameiginlegu liði Selfoss, Hrunamanna og Hamars í 10. flokki riðu á vaðið í gær, laugardag, gegn sterku liði Grindavíkur. Þetta reyndist erfitt verkefni fyrir okkar stúlkur og leikurinn tapaðist 32-77. Með meiri samæfingu stúlknanna, sem koma úr þremur félögum og hafa ekki náð mörgum æfingu saman, er næsta víst að þær munu bíta frá sér þegar lengra er komið fram í haustið.

Í dag, sunnudag, lék b lið 10. flokks drengja gegn c liði Stjörnunnar á heimavelli í Gjánni og er skemmst frá því að segja að Selfoss sigldi beggja skauta byr og vann leikinn með yfirburðum, 82-32. 

Í Keflavík atti 9. flokkur drengja kappi við heimamenn. Selfoss teflir fram liði með Hamri í þessum aldursflokki. Leikar fóru svo að Selfoss/Hamar vann Keflvíkinga 42-47.

Það má því segja að keppnistímabilið fari af stað með látum, en nýlega vann unglingaflokkur góðan sigur á ÍR á útivelli og árangurinn því 75% í fyrstu leikjahrinu.

Selfoss á til góða leik hjá a liði 10. flokks drengja, en leik þeirra um helgina var frestað og þeir spila sinn fyrsta leik um næstu helgi, sunnudaginn 12. september kl. 13:30 gegn ÍA hér heima í Gjánni.

ÁFRAM SELFOSS!!!