Það er ánægjulegt að sjá að loknu erfiðu og löngu tímabili nöfn „okkar manna“ á úrvalslistum körfuboltasambandsins.
Þrír leikmenn Selfoss voru valdir í æfingahóp U20 landsliðs fyrir sumarið. Þetta eru þeir Arnór Bjarki Eyþórsson, Gunnar Steinþórsson og Sveinn Búi Birgisson sem allir léku stórt hlutverk í Selfossliðinu í 1. deild karla, auk þess að vera burðarásar unglingaflokksliðs félagsins. Arnór Bjarki þarf að draga sig út úr hópnum því hann er á förum þessa dagana til Bandaríkjanna þar sem hann hefur fengið fullan skólastyrk við Toledo University í Ohio og mun leika með liði skólans í háskólaboltanum þar vestra (sjá nánar).
Selfoss á einnig þrjá fulltrúa í U15 æfingahópnum, þá Birki Hrafn Eyþórsson, yngri bróður Arnórs Bjarka, Gísla Stein Hjaltason og Sigurð Darra Magnússon.
Á uppskeruhátíð KKÍ vara svo tilkynnt um verðlaunahafa í tveimur efstu deildum karla og kvenna. Þar á Selfoss verðugan fulltrúa, Svein Búa Birgisson, sem valinn var besti ungi leikmaðurinn í 1. deild karla.
Um leið og við óskum þessum drengjum innilega til hamingju með árangurinn og viðurkenninguna brýnum við alla aðra iðkendur hjá félaginu til dáða. Fjöldinn allur af frábærum krökkum og ungum leikmönnum hefur lagt gríðarlega mikið á sig og tekið miklum framförum. Þó gaman sé að fá opinberar viðurkenningar, þá skiptir mestu að trúa á sjálfan sig og vera ætíð trúr markmiðum sínum. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir og það kemur fyrst í ljós þegar flautað er til leiksloka hver er með pálmann í höndunum, persónulega og félagslega.
ÁFRAM SELFOSS!!!